Færsluflokkur: Bloggar

Eitt sterkasta skáklið sem sótt hefur okkur heim



Haustið 2011 var sett fram sú hugmynd að efna til samstarfs
við Skáksamband Íslands um að fá hingað kínverskt skáklið til þess að heyja
landskeppni við Íslendinga. Skyldi það verða liður í hátíðarhöldum vegna 60 ára
afmælis Kím á þessu ári. Gekk það að óskum og komu kínversku skákmennirnir til
landsins í kvöld.





Á vefsíðu skáksambanddsins er frétt um eitthvert sterkasta skáklið sem sótt
hefur Ísland heim
.




Nýja heimasíðan uppfærð - biðlað til lesenda

Ágæti lesandi.

 

Nú er verið að endurhanna nýju heimasíðuna, http://kim.is, sem hleypt var af stokkunum í fyrrahaust. Stefnt er að því að síðan verði lifandi vettvangur fyrir starf félagsins.

 

Okkur leikur hugur á að útvega myndefni og frásagnir af ferðum fólks til Kína og hvað eina sem varpa megi ljósi á hin margvíslegu kynni Íslendinga og Kínverja. Minningabrot, frásagnir og myndir verða því vel þegin. Einnig þætti okkur vænt um að fá ábendingar um hvað eina sem eðlilegt væri að birta á síðunni og snertir samskipti þjóðanna.

Vinsamlegast sendið tölvupóst á netfangið kim@kim.is og haft verður samband við ykkur.

 

Aðalfundur félagsins verður eftir miðjan október og verður auglýstur innan skamms. Þar verður m.a. gerð grein fyrir því viðamikla starfi sem unnið hefur verið til þess að undirbúa 60 ára afmæli félagsins á næsta ári.

 

Með félagskveðju,

 

Stjórn Kím

 

 

---

 

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Sími:      5611703

Farsími:               8973766

Netföng:             arnthor.helgason@simnet.is

                               arnthor.helgason@gmail.com

http://arnthorhelgason.blog.is

http://hljodblog.is

 

 

 

 

 


Málþing á morgun í HÍ í tilefni komu kínverska ísbrjótsins Snædrekans til Íslands

Áhugavert málþing verður haldin á morgun, föstudaginn 17. ágúst, í Háskóla Íslands. Efni málþingsins eru rannsóknir á norðurslóðum og munu vísindamenn frá Íslandi og Kína fjalla um þetta mikilvæga viðfangsefni út frá ýmsum sjónarhornum. Nánari upplýsingar og skráning er að finna hér.

Ritstjóri


Barna- og unglingakór frá Hong Kong í heimsókn - tónleikar í kvöld 14. ágúst

Vert er að minna áhugafólk um skemmtilega tónlist á tónleika Yip barna- og unglingakórsins frá Hong Kong og stúlknakórs Reykjavíkur sem verða haldnir í Grensáskirkju í kvöld þriðjudaginn 14. ágúst og hefjast kl:20:30.
Yip barna- og unglingakórinn er komin hingað til lands í boði Stúlknakórs Reykjavíkur og KÍM. Hann hélt góða tónleika í Hörpu síðasta sunnudag og fékk mikið lof fyrir.

Ritstjóri


Áhugaverður fyrirlestur kínversks fræðimanns á sviði þjóðlagatónlistar

Í dag hélt zhang Boyu, prófessor við Tónlistarháskóla ríkisins í Beijing, fyrirlestur um þjóðlagahefð og þjóðhætti Awa-þjóðarinnar, sem býr í Yunnan-fylki í Suðvestur-Kína. Awa-fólkið er álíka fjölmenn þjóð og Íslendingar, eða um 350.000 manns. Fámennur hópur býr innan landamæra Burma.Í fyrirlestrinum rakti Zhang í stuttu máli landshætti og sitthvað í lifnaðarháttum Awa-þjóðarinnar, ræddi um siði og venjur, híbýli, sögu og trúarbrögð. Þá ræddi hann um hátíðir, tungu þjóðarinnar og tónlist.

Rannsóknir Zhang Boyu hafa einkum beinst að varðveislu þjóðlegrar tónlistar, en um þessar mundir hallar undan fæti á sumum sviðum menningar Awa-þjóðarinnar. Lýsti hann því hvernig fólk sækist eftir því að setjast að í borgum og bæjum, þar sem aðstæður eru með allt öðrum hætti en í þorpunum. Tungumál Awa-þjóðarinnar hefur látið undan síga fyrir fjölmennari mállýskum og Mandarín-kínversku, sem unga fólkið tileinar sér. Nú er svo komið að nokkur hluti ungs fólks getue ekki lengur tjáð sig við foreldra sína á móðurmáli sínu.

Þá lýsti Zhang þeirri þróun, sem hefur orðið á hátíðum þjóðarinnar, en flestar þeirra hafa fengið aðra merkingu en áður – erun helst haldnar ferðamönnum til heiðurs. Þá taldi hann að þjóðleg tónlist væri á miklu undanhaldi og henni sinntu nú einna helst hópar atvinnufólks.

Fyrirlesturinn var afar fróðlegur. Bar hann saman það sem hefur gerst á Vesturlöndum þar sem enskan herjar á ýmis tungumál á sama hátt og ríkiskínverskan herjar nú á tungumál smáþjóðanna, sem búa innan landamæra ríkisins, ekki vegna þess að málinu sé endilega haldið að fólki, heldur vegna hins að unga fólkið kýs að taka upp þá þjóðtungu sem flestir skilja. Var niðurstaða Zhangs sú að þrátt fyrir þetta héldu ýmis einkenni þjóðlegrar menningar velli hjá Awa-þjóðinni á sama hátt og Vesturlandabúar stæðu vörð um sitthvað í menningu sinni þrátt fyrir ásókn enskrar og amerískrar menningar. 

Það er mikill fengur að því þegar jafnfjölmenntaður þjóðfræðingur og Zhang Boyu sækir Íslendinga heim. Hann hitti fræði- og listamenn á sviði íslenskrar menningar og skiptust þeir á upplýsingum. Vonandi er hér byrjuð þróun sem leiðir til samskipta íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði þjóðháttafræði og þjóðlegrar tónlistar.

 Arnþór Helgason


Ómur frá Xiamen

Formaður KÍM Arnþór Helgason heldur úti skemmtilegri bloggsíðu þar sem finna má þetta í síðustu færslu. Þarna má heyra óm af mikilli mannmergð sem er á leiðinni út í hina gullfallegu Gulaneyju við Xiamen í Fujianhérðaði í Kína.

Þessi krækja er birt hér með góðfúslegu leyfi Arnþórs.

 

Magnús Björnsson


Ár vatna drekans

Hinn 23. janúar síðast liðinn, á fyrsta degi árs drekans að nærri 50 alda sið Kínverja, var viðtal við Arnþór Helgason formann KÍM um ár vatna drekans og siði tengda stjörnuspeki Kínverja, en Arnþór er manna fróðastur um þessi mál. Viðtalið var á Bylgjunni. Hér má nálgast stutta frásögn um viðtalið og viðtalið í heild sinni hér.

 Emil Bóasson


Gróðinn í austri

Um allan heim eru menn að hugsa um það.
Fáir þó af meiri alvöru en íbúar á lítilli eyju ... er hundruð eldflauga beinast að.
Hvernig á að bregðast við vaxandi mætti Kínverja.

Peking
Rauðar kúlur hanga niður úr loftinu. Ég er að slafra í mig la-mian úr hvítri plastskál með einnota tréprjónum. Eldheit chili súpan er vörn gegn kvefi, a.m.k. hvítlaukurinn sem er í henni held ég og vorlaukurinn. Núðlurnar fylla líka dásamlega vel út í vömbina. Það er kominn hávetur í hérna í Peking. Hætt að kólna, ekki byrjað að hlýna. Frostið fer niður í þetta 6-10 gráður en síðan lyftir hitinn sér kanski rétt yfir frostmarkið upp úr hádeginu. Þó að það sé heldur kaldara hér en í Reykjavík á þessum árstíma er skammdegið minna, bjart frá hálf átta á morgnana til fimm. Þetta eru hátíðarkúlur sem hanga þarna niður úr loftinu á zaocan-staðnum, hengdar upp í tilefni vorhátíðarinnar sem nálgast óðum. Þá fagnar fólk komu vors og upphafi nýss árs samkvæmt fornu kínversku bændadagatali. Að þessu sinni ber hátíðina upp 23. janúar. Þá hefst ár drekans. Einkenni hans eru sögð vera höfðingsskapur þó hann geti víst einnig verið all yfirgangssamur. Drekinn sem prýðir hin opinberu nýársfrímerki að þessu sinni er reyndar ekkert krútt. Ég myndi segja að hann væri frekar ógnvekjandi.

Valdið
Súperskvísurnar eru hættar, frá og með fyrsta þessa mánaðar það best ég veit. Miðstjórn ákvað þetta í haust í tengslum endurskoðun á stefnu í menningarmálum. Já, nú er þrengt að skemmtiefni á öllum vígstöðvum. Í staðinn er keyrt á áróðri um Flokkinn, samheldni þjóðarbrotanna í landinu, óhæfu Japana í heimsstyrjöldinni o.s.frv. Listamönnum, mannréttindafrömuðum og öðrum talsmönnum málfrelsis er stefnt fyrir dómstóla. Þetta er í raun sorgarsaga Kínverska Alþýðulýðveldisins í hnotskurn: Leiðtogarnir reyna að virkja mannvitið til að til að byggja upp framleiðslugetu. Um leið og alþýðan sýnir merki um frumlega hugsun er hún fjötruð. Fyrst fyrir barðinu á ákvörðun miðstjórnar í haust var HST-sjónvarpsstöðin sem hefur verið með á dagskránni hina feikivinsælu sjónvarpsþætti Súperskvísur. Forstjóri stöðvarinnar hr. Li Hao segir: „hér eftir verður aðeins sent út efni er stuðlar að bættu siðferði og almannaöryggi auk þátta með hollráðum varðandi heimilisstörfin".

Taívan
Kína var aðalmálið í forsetakosningunum á Taívan sl. laugardag. Tæknilega ríkir stríðsástand milli ríkjanna tveggja. Bæði gera tillkall til yfirráða yfir öllu Kína, meginlandinu og Taívan-eyju. Hvorugt ríkið viðurkennir hitt formlega. Bein átök hafa þó legið niðri síðan á sjötta áratugnum. Kosningabaráttan stóð á milli sitjandi forseta hr. Ma Ying-jeou og frú Tsai Ing-wen. Mjótt var á mununum en að lokum var það hr. Ma sem sigraði. Flokkur hans hans Kuomintang (KMT) vill efla viðskipti við Kína, jafnvel taka upp viðræður um friðarsáttmála við fyrsta tækifæri. Flokkur frú Tsai Lýðræðislegi framfaraflokkurinn (DPP) talar hins vegar fyrir því að Taívan eigi að líta á sig sem sjálfstætt ríki óháð Kína. Niðurstöður kosninganna draga úr spennu í samskiptum Kína og Taívans. Kínversk stjórnvöld voru fyrirfram búin að vara við því að tengslin gætu skaðaðst ef frú Ing færi með sigur af hólmi. Á hinn bóginn gjalda margir varhug við flaðri KMT upp um herrana í Peking, óttast að það kunni að leiða til vaxandi íhlutanar þeirra og sameiningar ríkjanna á ólýðræðislegum forsendum.

Sögubrot
Taívan er eyja skammt undan suðaustur-strönd meginlands Kína. Japanir fóru þar með völd frá 1895. Eftir uppgjöf þeirra í heimsstyrjöldinni 1945 féllu yfirráð í hendur Kína sem þá var stjórnað af Kuomintang-flokknum (KMT). Strax eftir heimsstyrjöldina brast á borgarastríð milli þeirra og kommúnista. KMT fór halloka og hörfaði loks með ríkisstjón sína til Taívans árið 1949. Ekki hefur verið unndirrtiaður friðarsamningur milli Kína og Taívans. Bæði löndin gera tilkall til yfirráða yfir öllu Kína. Taívan nýtur stuðnings Bandaríkjamanna í þessu þrátefli. Framan af einkenndist stjórnarfar á Taívan af einræði KMT. Þjóðartekjur á mann jukst samt mjög hratt. Á tíunda áratugnum var ráðist í lýðræðisumbætur. Í fyrstu frjálsu forsetakosningunum árið 2000 sigraði Chen Shui-bian frambjóðandi  Lýðræðislega framfaraflokksins (DPP). Hann vildi að Taívan afsalaði sér tilkalli til valda á meginlandinu en lýsti yfir formlegu sjálfstæði Taivan-eyju. Þetta skapaði spennu í samskiptunum við Kína. Chen hrökklaðist frá völdum árið 2008 vegna spillingarmála. Við tók sitjandi forseti Ma Ying-jeou.

Stefán Úlfarsson http://blogg.visir.is/kinastefan/


Kínversk jól

Jól eru haldin hátíðleg í flestum ríkjum heimsins. Kína er þar engin undantekning.

 Jólahald hefur orðið æ vinsælla í Kína eftir því sem vestræn áhrif hafa aukist og efnahagur batnað. Á þetta einkum við um stærstu borgirnar. Víða um landið eru kristnar kirkjur og þar sem kristnir söfnuðir eru halda menn jól.

Sögur hafa farið af því að ásókn í miðnæturmessu á jólanótt sé svo mikil að kirkjurnar rúmi vart þann fjölda sem þangað sækir. En flestir, sem gera sér dagamun um jólaleytið í Kína, hugsa lítið um uppruna þessarar kristnu hátíðar. Hjá þeim eru jólin eins konar aðdragandi kínversku nýárshátíðarinnar, sem er meginhátíð landsmanna.

Á umliðnum árum hefur það færst í vöxt að fólk skiptist á jólagjöfum. Jólin þykja kjörin til þess að gefa vinum og þeim, sem fólki þykir vænt um, jólagjafir og margir gera sér dagamun í mat og drykk. Víða skreytir fólk jólatré, sem í Kína eru yfirleitt kölluð „ljósatré" og börn hengja upp músastiga í þeirri von að jólasveinninn (圣诞老人) færi þeim gjafir.

Jólin í stórborgunum markast mjög af aukinni verslun, miklum ljósaskreytingum og stórveislum (jólaboðum) sem haldin eru á aðventunni. Alþjóðaútvarpið í Beijing spurði fyrir nokkru vegfarendur um ástæður þess að haldin væru jól. Örfáir vissu eitthvað um Jesúm Krist, en flestir sögðu að jólin væru hátíð gleði, veislna og góðs matar. Að sögn fréttamannsins fer misjafnt orð af þessum jólaboðum, einkum þar sem unglingar eiga í hlut. Einn viðmælandinn hafi orð á því að engin ástæða væri til að taka upp vestræna hátíð, ef engin siðfræðileg eða trúarleg gildi fylgdu henni. Því væri Kínverjum nauðsynlegt að finna hátíðinni einhvern annan tilgang en þann að skemmta sér og eyða fé.

 

Arnþór Helgason


Viðtal við Huang Nubo í Morgunblaðinu

Morgunblaðið birti laugardaginn 10. desember viðtal við Huang Nubo. Vegna fyrri skrifa á þessari bloggsíðu er viðtalið birt hér að neðan með leyfi Morgunblaðsins.

Arnþór Helgason

 

Viðtal: Sigrún Rósa Björnsdóttir, sigrunrosa@mbl.is

Fjárfestirinn Huang Nubo, sem á dögunum var hafnað um undanþágu til að kaupa um 72% af 300 ferkílómetra landi Grímsstaða á Fjöllum, segist hafa orðið ráðvilltur þegar hann hafi í kjölfar þess að innanríkisráðherra birti ákvörðun sína fengið þær upplýsingar að hægt væri að halda viðræðum áfram, sem hann er reiðubúinn að gera. „Kannski er þetta séríslensk leið til að gera hlutina," segir Huang en Morgunblaðið átti viðtal við hann í gegnum tölvupóstssamskipti.

Hann segist persónulega ekki hafa neitt á móti innanríkisráðuneytinu en gagnrýnir málsmeðferðina harðlega og segist ráðvilltur eftir að hafa lesið svarið frá ráðuneytinu. „Ef ég var að kaupa of stórt land hefði ég búist við því að það væru nákvæm ákvæði í lögum ykkar um hámarksstærð þess lands sem erlendum fjárfestum er leyfilegt að kaupa. Það bæði ruglar fjárfesta og dregur úr vilja þeirra til að fjárfesta ef ekki fást skýr svör. Það mega alls ekki vera handahófskenndar ákvarðanir sem byggjast á velþóknun eða vanþóknun."

Huang segist enn standa við þær fyrirætlanir sínar að byggja upp keðju norrænna ferðaþjónustustaða. „Upphaflega var ætlunin að gera það frá Íslandi, stofna höfuðstöðvar í Reykjavík og ráða starfsfólkið þaðan," segir Huang. Það myndi síðan finna fjárfestingarmöguleika á Norðurlöndum sem yrði farið í skref fyrir skref. „Hins vegar lítur ekki út fyrir að það muni ganga. Geti ég ekki fjárfest á Íslandi verð ég í sambandi við viðeigandi stofnanir í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð." Sú vinna sé þegar hafin þar sem stofnanir þar hafi þegar reynt að hafa samband. Á næstu einu til tveimur árum kanni starfsfólk á hans vegum fjárfestingarmöguleika innan þessara landa áður en hann taki svo ákvörðun.

Reiðubúinn í viðræður áfram

Haft hefur verið eftir iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, að Fjárfestingastofa yrði í sambandi við Huang í því skyni að leiðbeina við fjárfestingar á Íslandi.

Hefur í viðræðum verið komið inn á þann möguleika að þú getir keypt landið, eða þá leigt það af landeigendum eða ríkinu ef það keypti landið?

„Fjárfestingastofa hafði samband við okkur í síðustu viku og við höldum sambandi í gegnum fulltrúa minn á Íslandi," segir Huang og lýsir ánægju sinni með að vera í sambandi við íslenskar fjárfestingastofnanir. Hann ítrekar að í viðskiptum sínum leggi hann áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustusvæða fremur en einstakra hótela. „Ég byggi upp svæði, kaupi land eða leigi eftir því sem hentar starfseminni. Reyndar leigi ég yfirleitt land frekar en að kaupa, svo ég er opinn fyrir viðræðum um hvers konar form á fjárfestingunni. Svo lengi sem ekki er lokað á viðræður er ég reiðubúinn að halda áfram; kaupsýslumenn hafa alltaf þolinmæði í samningaviðræðum."

Iðnaðarráðherra hefur í fjölmiðlum sagst reiðubúin til viðræðna um fjárfestingar við Huang. Hann segist aðspurður spenntur fyrir því að koma aftur til Íslands og ræða fjárfestingarmöguleika. Hann verði hvort eð er tíður gestur á Íslandi enda eigi hann þar gamla vini.

Af hverju „allt þetta land"?

Þegar Huang er spurður hvort hann þurfi „allt þetta land" segir hann: „Ég kom ekki með stækkunargler frá Kína til Íslands í leit að landi en þetta er það land sem mér var boðið að fjárfesta í. Ástæðan fyrir því að ég hafði áhuga og ákvað að fjárfesta í hugmyndinni er sú að hún er í samræmi við ferðaþjónustuhugmyndir mínar og hvernig ég stunda viðskipti í víðara samhengi. Ég held að það gæfi ekki mikið af sér að setja upp eitt hótel einhvers staðar á Íslandi. En ef ég byggi upp ferðaþjónustu og græði upp eitthvað af auðninni og hæðunum og sé fyrir viðeigandi afþreyingu þá verður hún mjög aðlaðandi fyrir flesta ferðamenn. Ég vonast til að þeir eyði minnst þremur til sjö dögum af frítíma sínum þar. Þannig gefur hver ferðamaður meira af sér, Kínverjar, Evrópubúar, Bandaríkjamenn, Asíubúar og Rússar og efnahagslegur grunnur fyrir svæðið er byggður upp."

Hugmyndin um golfvöll þykir nokkuð langsótt t.d. vegna veðurfars. Hvert er þitt mat?

„Ég ætla að byggja upp vistvænan golfvöll í sátt við vistkerfið á svæðinu." Þar séu allir þættir fyrir hendi. Grasið á svæðinu sé hægt að rækta fyrir flatirnar. Ekki sé ætlunin að halda stórmót á vellinum enda góðir golfvellir í nágrenninu. Þótt áskorun felist í að byggja upp vistvænan golfvöll, sérstaklega með tilliti til umhverfissjónarmiða, þá þurfi litla fjárfestingu til þess.

Hvað veðurfarið varðar segir Huang það sína reynslu að ferðaþjónustusvæðum heimsins sé almennt skipt í háannatíma og tímann utan hans, háð veðurfari. „Reyndar minnir veðurfarið á Íslandi nokkuð á Khasgar, svæði í norðvesturhluta Kína, þar sem ég rek stóra ferðaþjónustu; langir vetur og stutt sumur. Við höfum reynslu af því að eiga við mismunandi veðurfar og myndum verða vel undirbúin fyrir að nýta hverja árstíð sem best."

Vestrænir fordómar

Í umræðu um landakaup þín hefur komið fram gagnrýni á reynslu Svía af tilteknum kínverskum fjárfestum.

„Þetta eru fordómar Vesturlanda gagnvart kínverskum fjárfestum. Við höfum fjárfest í Bandaríkjunum við góðan orðstír. Ég er formaður Kínadeildar í náttúruverndarsamtökunum American Nature Concervancy Association, sem vinnur mikilvægt starf við að vernda skóga og villta náttúru í Afríku og Kína," segir Huang en hann hafi komið að vernd fornra kínverskra þorpa og eitt þeirra hafi farið á heimsminjaskrá árið 2000.

„Ég hef haft tækifæri til að ræða ábyrgð kínverskra fjárfesta við þá sem hafa gert slíkar athugasemdir og ég geri það fúslega. Þegar litið er til 30 ára þróunar kínversks markaðshagkerfis tel ég að ég sé vel liðinn og heiðarlegur og trúi því að ég hafi lagt eitthvað fram til heimsins og alþjóðavæðingar."

Segist vilja íslenskt vinnuafl

Einnig hefur verið rætt um hvort þú munir nýta þér innlent vinnuafl ef af fyrirhugaðri uppbyggingu verður?

„Auðvitað mun ég nota mér íslenskt vinnuafl við uppbyggingu verkefnanna. Það er sama hvar ég hef fjárfest, í Kína eða Bandaríkjunum, ég hef alltaf haldið mig við þá grundvallarreglu að fjárfestingarnar skili sér til fólksins á svæðinu." Þetta sé lykilþáttur í velgengni Zhongkun í Kína og Bandaríkjunum.

Komið hefur fram að þú vildir tengja þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum við land Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvernig væri það gert, en nú á ríkið 25% af landi Grímsstaða?

Huang segist mikill umhverfisverndunarsinni og vísar aftur til þess að hann er formaður Kínadeildar í náttúruverndarsamtökunum American Nature Concervancy Association. Umhverfisráðuneytið hafi þegar farið fram á að hluti landsins verði gerður að þjóðgarði. Að hans áliti sé það mjög viðeigandi og hann myndi styðja það í samvinnu við ríkisstjórnina.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband