Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Kínverjar og Icesave-málið



Kínverjar studdu Íslendinga í Icesave-málinu



Mikið hefur verið um það ritað í
sambandi við farsæla lausn Icesave-málsins, hvernig Bretar og Hollendingar,
ásamt öðrum ESB-ríkjum, fullyrtu hvað eftir annað að Íslendingum bæri skylda
til að ábyrgjast Icesave innistæðurnar -- og reyndu með margskonar hörku og
þrýstingi að  knýja fram vilja sinn. Jafnvel
frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, þar á meðal Norðmenn, bundu fyrirheit um lán,
sem Ísland sárlega þarfnaðist, því skilyrði að samið yrði við Breta og Hollendinga
um að ríkissjóður Íslands -- og þar með íslenskur almenningur -- tæki fulla
ábyrgð á Icesave. Þetta var kallað að við yrðum að "standa við alþjóðlegar
skuldbindingar" okkar. EFTA-dómstóllinn hefur nú endanlega staðfest að ekki var
um neitt slíkt að ræða fremur en við héldum fram.



            Vert
er að halda því til haga, að meðan svona stóð í samskiptum við þær þjóðir, sem
næst okkur standa, reyndust Kínverjar traustir stuðningsmenn Íslendinga. Í
stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) studdu þeir fyrirgreiðslu við Ísland
afdráttarlaust á sama tíma og ESB-ríkin beittu töfum og misnotuðu þannig sjóðinn
til þrýstings á okkur. Einnig gerðu Kínverjar samning við Seðlabanka Íslands um
fjármálafyrirgreiðslu sem kom Íslandi vel á þessum erfiða tíma.



Kínverjar, ásamt
Færeyingum og Pólverjum, reyndust Íslendingum vinir í raun þegar á móti blés.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Kína veitir Íslandi mikilsverðan stuðning. Það
gerðist einnig þegar fiskimið Íslendinga og þar með afkomumöguleikar
þjóðarinnar voru verndaðir með útfærslu fiskveiðilögsögunnar á sinni tíð. Þá
eins og nú sætti málstaður Íslendinga miklum mótblæstri ríkja sem nær stóðu.



            Stuðningur
Kínverja í Icesave-málinu kom í kjölfar þess að nokkrir forráðamenn Íslensk-kínverska
viðskiptaráðsins (ÍKV) og Kínversk-íslenska menningarfélagsins (KÍM) gengu fyrir
eigin frumkvæði á fund kínverska sendiherrans í Reykjavík haustið 2008 og
mæltust til að leitast yrði við að styðja Ísland í hinni þröngu stöðu. Um sama
leyti fór sendiherra Íslands í Beijing af hálfu ríkisstjórnarinnar fram á hið
sama við ráðamenn eystra.



Reynslan
sýnir að mikilvægt er fyrir Ísland að rækta áfram þau góðu tengsl sem komist
hafa á við Kína á undanförnum árum og líta í utanríkismálum sínum ekki eingöngu
til grannríkja sinna í Evrópu.   


Viðtal við Huang Nubo í Morgunblaðinu

Morgunblaðið birti laugardaginn 10. desember viðtal við Huang Nubo. Vegna fyrri skrifa á þessari bloggsíðu er viðtalið birt hér að neðan með leyfi Morgunblaðsins.

Arnþór Helgason

 

Viðtal: Sigrún Rósa Björnsdóttir, sigrunrosa@mbl.is

Fjárfestirinn Huang Nubo, sem á dögunum var hafnað um undanþágu til að kaupa um 72% af 300 ferkílómetra landi Grímsstaða á Fjöllum, segist hafa orðið ráðvilltur þegar hann hafi í kjölfar þess að innanríkisráðherra birti ákvörðun sína fengið þær upplýsingar að hægt væri að halda viðræðum áfram, sem hann er reiðubúinn að gera. „Kannski er þetta séríslensk leið til að gera hlutina," segir Huang en Morgunblaðið átti viðtal við hann í gegnum tölvupóstssamskipti.

Hann segist persónulega ekki hafa neitt á móti innanríkisráðuneytinu en gagnrýnir málsmeðferðina harðlega og segist ráðvilltur eftir að hafa lesið svarið frá ráðuneytinu. „Ef ég var að kaupa of stórt land hefði ég búist við því að það væru nákvæm ákvæði í lögum ykkar um hámarksstærð þess lands sem erlendum fjárfestum er leyfilegt að kaupa. Það bæði ruglar fjárfesta og dregur úr vilja þeirra til að fjárfesta ef ekki fást skýr svör. Það mega alls ekki vera handahófskenndar ákvarðanir sem byggjast á velþóknun eða vanþóknun."

Huang segist enn standa við þær fyrirætlanir sínar að byggja upp keðju norrænna ferðaþjónustustaða. „Upphaflega var ætlunin að gera það frá Íslandi, stofna höfuðstöðvar í Reykjavík og ráða starfsfólkið þaðan," segir Huang. Það myndi síðan finna fjárfestingarmöguleika á Norðurlöndum sem yrði farið í skref fyrir skref. „Hins vegar lítur ekki út fyrir að það muni ganga. Geti ég ekki fjárfest á Íslandi verð ég í sambandi við viðeigandi stofnanir í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð." Sú vinna sé þegar hafin þar sem stofnanir þar hafi þegar reynt að hafa samband. Á næstu einu til tveimur árum kanni starfsfólk á hans vegum fjárfestingarmöguleika innan þessara landa áður en hann taki svo ákvörðun.

Reiðubúinn í viðræður áfram

Haft hefur verið eftir iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, að Fjárfestingastofa yrði í sambandi við Huang í því skyni að leiðbeina við fjárfestingar á Íslandi.

Hefur í viðræðum verið komið inn á þann möguleika að þú getir keypt landið, eða þá leigt það af landeigendum eða ríkinu ef það keypti landið?

„Fjárfestingastofa hafði samband við okkur í síðustu viku og við höldum sambandi í gegnum fulltrúa minn á Íslandi," segir Huang og lýsir ánægju sinni með að vera í sambandi við íslenskar fjárfestingastofnanir. Hann ítrekar að í viðskiptum sínum leggi hann áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustusvæða fremur en einstakra hótela. „Ég byggi upp svæði, kaupi land eða leigi eftir því sem hentar starfseminni. Reyndar leigi ég yfirleitt land frekar en að kaupa, svo ég er opinn fyrir viðræðum um hvers konar form á fjárfestingunni. Svo lengi sem ekki er lokað á viðræður er ég reiðubúinn að halda áfram; kaupsýslumenn hafa alltaf þolinmæði í samningaviðræðum."

Iðnaðarráðherra hefur í fjölmiðlum sagst reiðubúin til viðræðna um fjárfestingar við Huang. Hann segist aðspurður spenntur fyrir því að koma aftur til Íslands og ræða fjárfestingarmöguleika. Hann verði hvort eð er tíður gestur á Íslandi enda eigi hann þar gamla vini.

Af hverju „allt þetta land"?

Þegar Huang er spurður hvort hann þurfi „allt þetta land" segir hann: „Ég kom ekki með stækkunargler frá Kína til Íslands í leit að landi en þetta er það land sem mér var boðið að fjárfesta í. Ástæðan fyrir því að ég hafði áhuga og ákvað að fjárfesta í hugmyndinni er sú að hún er í samræmi við ferðaþjónustuhugmyndir mínar og hvernig ég stunda viðskipti í víðara samhengi. Ég held að það gæfi ekki mikið af sér að setja upp eitt hótel einhvers staðar á Íslandi. En ef ég byggi upp ferðaþjónustu og græði upp eitthvað af auðninni og hæðunum og sé fyrir viðeigandi afþreyingu þá verður hún mjög aðlaðandi fyrir flesta ferðamenn. Ég vonast til að þeir eyði minnst þremur til sjö dögum af frítíma sínum þar. Þannig gefur hver ferðamaður meira af sér, Kínverjar, Evrópubúar, Bandaríkjamenn, Asíubúar og Rússar og efnahagslegur grunnur fyrir svæðið er byggður upp."

Hugmyndin um golfvöll þykir nokkuð langsótt t.d. vegna veðurfars. Hvert er þitt mat?

„Ég ætla að byggja upp vistvænan golfvöll í sátt við vistkerfið á svæðinu." Þar séu allir þættir fyrir hendi. Grasið á svæðinu sé hægt að rækta fyrir flatirnar. Ekki sé ætlunin að halda stórmót á vellinum enda góðir golfvellir í nágrenninu. Þótt áskorun felist í að byggja upp vistvænan golfvöll, sérstaklega með tilliti til umhverfissjónarmiða, þá þurfi litla fjárfestingu til þess.

Hvað veðurfarið varðar segir Huang það sína reynslu að ferðaþjónustusvæðum heimsins sé almennt skipt í háannatíma og tímann utan hans, háð veðurfari. „Reyndar minnir veðurfarið á Íslandi nokkuð á Khasgar, svæði í norðvesturhluta Kína, þar sem ég rek stóra ferðaþjónustu; langir vetur og stutt sumur. Við höfum reynslu af því að eiga við mismunandi veðurfar og myndum verða vel undirbúin fyrir að nýta hverja árstíð sem best."

Vestrænir fordómar

Í umræðu um landakaup þín hefur komið fram gagnrýni á reynslu Svía af tilteknum kínverskum fjárfestum.

„Þetta eru fordómar Vesturlanda gagnvart kínverskum fjárfestum. Við höfum fjárfest í Bandaríkjunum við góðan orðstír. Ég er formaður Kínadeildar í náttúruverndarsamtökunum American Nature Concervancy Association, sem vinnur mikilvægt starf við að vernda skóga og villta náttúru í Afríku og Kína," segir Huang en hann hafi komið að vernd fornra kínverskra þorpa og eitt þeirra hafi farið á heimsminjaskrá árið 2000.

„Ég hef haft tækifæri til að ræða ábyrgð kínverskra fjárfesta við þá sem hafa gert slíkar athugasemdir og ég geri það fúslega. Þegar litið er til 30 ára þróunar kínversks markaðshagkerfis tel ég að ég sé vel liðinn og heiðarlegur og trúi því að ég hafi lagt eitthvað fram til heimsins og alþjóðavæðingar."

Segist vilja íslenskt vinnuafl

Einnig hefur verið rætt um hvort þú munir nýta þér innlent vinnuafl ef af fyrirhugaðri uppbyggingu verður?

„Auðvitað mun ég nota mér íslenskt vinnuafl við uppbyggingu verkefnanna. Það er sama hvar ég hef fjárfest, í Kína eða Bandaríkjunum, ég hef alltaf haldið mig við þá grundvallarreglu að fjárfestingarnar skili sér til fólksins á svæðinu." Þetta sé lykilþáttur í velgengni Zhongkun í Kína og Bandaríkjunum.

Komið hefur fram að þú vildir tengja þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum við land Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvernig væri það gert, en nú á ríkið 25% af landi Grímsstaða?

Huang segist mikill umhverfisverndunarsinni og vísar aftur til þess að hann er formaður Kínadeildar í náttúruverndarsamtökunum American Nature Concervancy Association. Umhverfisráðuneytið hafi þegar farið fram á að hluti landsins verði gerður að þjóðgarði. Að hans áliti sé það mjög viðeigandi og hann myndi styðja það í samvinnu við ríkisstjórnina.


Um fjárfestingar útlendinga á Íslandi og Huang Nubo.

Hefði ekki verið sjálfsögð kurteisi að tala við manninn - kannski skoða möguleika til samstarfs? Hingað til hefur þjóðinni staðið mest ógn af kaupum Íslendinga í útlöndum á fasteignum. En ekki öfugt. Er þá ekki réttað setja í lög jafnframt að Íslendingum sé bannað að kaupa fasteignir erlendis?

  Hrafn Gunnlaugsson

 


Farvel fjallaskáld

Ákvörðun innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um að neita félagi kínverska fjárfestisins Huang Nubo um kaup á Grímstöðum á Fjöllum hefur varla farið fram hjá nokkrum manni. Olli þessi neitun þvílíkum titringi í samfélaginu að ætla mætti að jafnvel ríkisstjórn landsins væri komin að því að falla.

Þegar þetta er skrifað hefur margt verið sagt um þetta mál og sitt sýnist hverjum.

Ég ætla að leyfa mér að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun. Þarna höfum við trúlega misst að einstöku tækifæri sem ekki bara snýst um þennan einstaka fjárfesti heldur marga kínverska athafnamenn sem hafa hug á að koma fjármagni úr landi. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir alla umræðuna um að skáldið og náttúruunnandinn Huang Nubo sé flugumaður kínverska Kommúnistaflokksins er ekki ósennilegt að hugmyndir hans um að fjárfesta erlendis séu til þess ætlaðar að koma fjármagni úr landi og dreifa þeirri áhættu sem athafnamenn í Kína búa við innanlands. Kínverskir viðskiptajöfrar, sérstaklega af stærðargráðu Nubos, verða að halda góðum tengslum við Kommúnistaflokkinn og þarf ekki nema að móðga einn háttsettan embættismann til að stofna öllu viðskiptaveldinu í hættu. Það að vera kapitalisti í Kína er nefnilega mjög áhættusöm starfsgrein, kannski næst á eftir því að vera kolanámumaður eða yfirmaður matvælaeftirlitsins. Jafnframt kraumar undir í kínversku samfélagi og einhverjar líkur á breytingum á stjórnmálasviðinu sem ómöguleg er að segja til um hvernig muni þróast  Því hafa kínverskir auðmenn undanfarin misseri gert töluvert að því að nota fjárfestingar erlendis sem afsökun til að koma fjármagni úr landi í öruggara skjól. Eflaust hefðu einhverjir fleiri slíkir hugsað til Íslands en telja verður það afar ólíklegt eftir þetta.

Annað glatað tækifæri í þessu máli er Nubo sjálfur. Hann virðist vera (ég þekki manninn ekki neitt) mjög óhefðbundinn kínverskur viðskiptajöfur. Er ljóðskáld og mikill útivistamaður sbr. ferðir hans á Everestfjall ásamt ferðum á norðurslóðir auk þess sem hann hefur afar skemmtilega tengingu við Ísland frá háskólaárum sínum. Hljómar hreint mjög spennandi sem fyrsti alvöru kínverski athafnamaðurinn til að haslar sér völl hér á landi. En því miður er þetta tækifæri trúlega runnið okkur úr greipum og tel ég engar líkur á að hann vilji eitthvað meira við okkur tala. Stjórnsýsla Ögmundar þar sem Nubo var ekki einu sinni virtur viðlits er með þeim eindæmum að trúlega er of seint að bjarga nokkru. Hvernig þetta mál hefur verið unnið hefur eflaust orðið til þess að Nubo teljir sig hafa tapað andlitinu í samskiptum við íslensk stjórnvöld og það er ekki talið gott í Kína.

Magnús Björnsson  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband