Færsluflokkur: Tónlist

Barna- og unglingakór frá Hong Kong í heimsókn - tónleikar í kvöld 14. ágúst

Vert er að minna áhugafólk um skemmtilega tónlist á tónleika Yip barna- og unglingakórsins frá Hong Kong og stúlknakórs Reykjavíkur sem verða haldnir í Grensáskirkju í kvöld þriðjudaginn 14. ágúst og hefjast kl:20:30.
Yip barna- og unglingakórinn er komin hingað til lands í boði Stúlknakórs Reykjavíkur og KÍM. Hann hélt góða tónleika í Hörpu síðasta sunnudag og fékk mikið lof fyrir.

Ritstjóri


Áhugaverður fyrirlestur kínversks fræðimanns á sviði þjóðlagatónlistar

Í dag hélt zhang Boyu, prófessor við Tónlistarháskóla ríkisins í Beijing, fyrirlestur um þjóðlagahefð og þjóðhætti Awa-þjóðarinnar, sem býr í Yunnan-fylki í Suðvestur-Kína. Awa-fólkið er álíka fjölmenn þjóð og Íslendingar, eða um 350.000 manns. Fámennur hópur býr innan landamæra Burma.Í fyrirlestrinum rakti Zhang í stuttu máli landshætti og sitthvað í lifnaðarháttum Awa-þjóðarinnar, ræddi um siði og venjur, híbýli, sögu og trúarbrögð. Þá ræddi hann um hátíðir, tungu þjóðarinnar og tónlist.

Rannsóknir Zhang Boyu hafa einkum beinst að varðveislu þjóðlegrar tónlistar, en um þessar mundir hallar undan fæti á sumum sviðum menningar Awa-þjóðarinnar. Lýsti hann því hvernig fólk sækist eftir því að setjast að í borgum og bæjum, þar sem aðstæður eru með allt öðrum hætti en í þorpunum. Tungumál Awa-þjóðarinnar hefur látið undan síga fyrir fjölmennari mállýskum og Mandarín-kínversku, sem unga fólkið tileinar sér. Nú er svo komið að nokkur hluti ungs fólks getue ekki lengur tjáð sig við foreldra sína á móðurmáli sínu.

Þá lýsti Zhang þeirri þróun, sem hefur orðið á hátíðum þjóðarinnar, en flestar þeirra hafa fengið aðra merkingu en áður – erun helst haldnar ferðamönnum til heiðurs. Þá taldi hann að þjóðleg tónlist væri á miklu undanhaldi og henni sinntu nú einna helst hópar atvinnufólks.

Fyrirlesturinn var afar fróðlegur. Bar hann saman það sem hefur gerst á Vesturlöndum þar sem enskan herjar á ýmis tungumál á sama hátt og ríkiskínverskan herjar nú á tungumál smáþjóðanna, sem búa innan landamæra ríkisins, ekki vegna þess að málinu sé endilega haldið að fólki, heldur vegna hins að unga fólkið kýs að taka upp þá þjóðtungu sem flestir skilja. Var niðurstaða Zhangs sú að þrátt fyrir þetta héldu ýmis einkenni þjóðlegrar menningar velli hjá Awa-þjóðinni á sama hátt og Vesturlandabúar stæðu vörð um sitthvað í menningu sinni þrátt fyrir ásókn enskrar og amerískrar menningar. 

Það er mikill fengur að því þegar jafnfjölmenntaður þjóðfræðingur og Zhang Boyu sækir Íslendinga heim. Hann hitti fræði- og listamenn á sviði íslenskrar menningar og skiptust þeir á upplýsingum. Vonandi er hér byrjuð þróun sem leiðir til samskipta íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði þjóðháttafræði og þjóðlegrar tónlistar.

 Arnþór Helgason


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband