Farvel fjallaskáld

Ákvörðun innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um að neita félagi kínverska fjárfestisins Huang Nubo um kaup á Grímstöðum á Fjöllum hefur varla farið fram hjá nokkrum manni. Olli þessi neitun þvílíkum titringi í samfélaginu að ætla mætti að jafnvel ríkisstjórn landsins væri komin að því að falla.

Þegar þetta er skrifað hefur margt verið sagt um þetta mál og sitt sýnist hverjum.

Ég ætla að leyfa mér að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun. Þarna höfum við trúlega misst að einstöku tækifæri sem ekki bara snýst um þennan einstaka fjárfesti heldur marga kínverska athafnamenn sem hafa hug á að koma fjármagni úr landi. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir alla umræðuna um að skáldið og náttúruunnandinn Huang Nubo sé flugumaður kínverska Kommúnistaflokksins er ekki ósennilegt að hugmyndir hans um að fjárfesta erlendis séu til þess ætlaðar að koma fjármagni úr landi og dreifa þeirri áhættu sem athafnamenn í Kína búa við innanlands. Kínverskir viðskiptajöfrar, sérstaklega af stærðargráðu Nubos, verða að halda góðum tengslum við Kommúnistaflokkinn og þarf ekki nema að móðga einn háttsettan embættismann til að stofna öllu viðskiptaveldinu í hættu. Það að vera kapitalisti í Kína er nefnilega mjög áhættusöm starfsgrein, kannski næst á eftir því að vera kolanámumaður eða yfirmaður matvælaeftirlitsins. Jafnframt kraumar undir í kínversku samfélagi og einhverjar líkur á breytingum á stjórnmálasviðinu sem ómöguleg er að segja til um hvernig muni þróast  Því hafa kínverskir auðmenn undanfarin misseri gert töluvert að því að nota fjárfestingar erlendis sem afsökun til að koma fjármagni úr landi í öruggara skjól. Eflaust hefðu einhverjir fleiri slíkir hugsað til Íslands en telja verður það afar ólíklegt eftir þetta.

Annað glatað tækifæri í þessu máli er Nubo sjálfur. Hann virðist vera (ég þekki manninn ekki neitt) mjög óhefðbundinn kínverskur viðskiptajöfur. Er ljóðskáld og mikill útivistamaður sbr. ferðir hans á Everestfjall ásamt ferðum á norðurslóðir auk þess sem hann hefur afar skemmtilega tengingu við Ísland frá háskólaárum sínum. Hljómar hreint mjög spennandi sem fyrsti alvöru kínverski athafnamaðurinn til að haslar sér völl hér á landi. En því miður er þetta tækifæri trúlega runnið okkur úr greipum og tel ég engar líkur á að hann vilji eitthvað meira við okkur tala. Stjórnsýsla Ögmundar þar sem Nubo var ekki einu sinni virtur viðlits er með þeim eindæmum að trúlega er of seint að bjarga nokkru. Hvernig þetta mál hefur verið unnið hefur eflaust orðið til þess að Nubo teljir sig hafa tapað andlitinu í samskiptum við íslensk stjórnvöld og það er ekki talið gott í Kína.

Magnús Björnsson  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband